Gólfið

Gólfið

Framkvæmdir þessa dagana snúast að öllu leyti um gólfið á efri hæðinni, sem sagt í eldhúsinu og stofunni. Við höfum snúist í ótal hringi með þetta gólf síðan við fengum afhent. Það var þó fyrsta skrefið að fjarlægja gólfefni til að komast niður á upprunalegu gólfborðin.

Áður en gólfefnin fóru af

Áður en gólfefnin fóru af

Undir plastparketi, spónaplötum og tveimur lögum af dúk komumst við niður á furuborðin. Þetta voru alls um 4 cm af gólfefnum sem fóru af.

Glittir í furuborðin

Glittir í furuborðin

Allt farið af eldhúsi og stofu

Allt farið af eldhúsi og stofu

Undir öllu voru heilleg furuborð, þakin rauðu dúkalími og pappa. Límið var glerhart og spændi upp sandpappírinn svo við urðum að skafa það af þar sem það var þykkast, áður en við fórum með gólfslípivélina yfir gólfið. 

2016-11-19-11.42.18.jpg
Gólfið skafið

Gólfið skafið

Sóðaleg vinna - muna grímuna

Sóðaleg vinna - muna grímuna

Við urðum einnig að naglhreinsa gólfin vel áður en hægt var að slípa, enda ótrúlegt magn af nöglum úti um allt. 

2016-11-19-15.30.51-2.jpg

Vélina leigðum við og lentum í ýmsum ævintýrum með hana. Pokinn rifnaði, rafmagnssnúran tættist í sundur og fleira gaman. Gólfborðin voru orðin kúpt og það sást greinilega þegar keyrt var yfir með vélinni, þar sem einungis miðjan slípaðist niður í fyrstu.

2016-11-20-12.01.31.jpg
2016-11-19-12.00.45.jpg
Photo-26-11-2016,-15.34.58.jpg

Eftir allmargar umferðir og tonn af sandpappír var allt dúkalím loksins farið af. Gólfið er mjög fallegt svona og það var upphaflega ætlunin að gera ekki meira við það, bara lakka eða olíubera. En borðin hafa rýrnað í gegnum árin svo það er frekar mikið bil á milli þeirra. Það er vissulega hægt að setja fúgu á milli borðanna, eða lista þar sem breiðustu bilin eru, en það er svo mikil hreyfing á gólfinu að það myndi aldrei endast vel.

Gólfborðin dúa mjög þegar gengið er á þeim, vegna þess að of langt er á milli burðarbitanna í gólfinu, eða um 100 cm. Í dag færi þetta bil aldrei yfir 60 cm. Við ætluðum aldrei að gera svona mikið fyrir gólfin í húsinu og því vorum við lengi að taka ákvörðun um að rífa allt upp til að bæta við burðarbitum til að gera gólfið stöðugra.

En við ákváðum að gera þetta bara almennilega núna á meðan við erum ekki enn flutt upp á efri hæðina. Þá fáum við líka tækifæri til að leggja steinull í gólfið til að hljóðeinangra, en það var engin einangrun svo orðaskil heyrðust á milli hæða.

Byrjað að fjarlægja gólfborðin í stofunni

Byrjað að fjarlægja gólfborðin í stofunni

Photo-04-06-2017,-18.49.46.jpg
Búið að taka öll gólfborðin í eldhúsinu og byrjað að leggja auka burðarbita

Búið að taka öll gólfborðin í eldhúsinu og byrjað að leggja auka burðarbita

2017-09-02-16.54.16.jpg

Eftir að búið var að bæta við burðarbitum var sett steinull og plast. Í stað þess að leggja gólfborðin beint ofan á bitana aftur, ákváðum við að setja gólfplötur fyrst. Það þurfti að hæðarstilla allverulega þar sem gömlu burðarbitarnir voru rammskakkir, og auðveldara að gera það við stórar plötur frekar en hvert gólfborð fyrir sig. Plöturnar eru 22 mm rakavarðar gólfplötur. 

Síðan er ætlunin að leggja gamla gólfið ofan á þetta. En ef borðin eru of illa farin svo hægt sé að leggja þau aftur, þá gefur það okkur sveigjanleika að vera allavega komin með gólfplöturnar. Það má þá leggja eitthvað annað gólfefni ef þess er þörf.

2017-10-01-17.16.24.jpg
2017-10-09-17.14.15.jpg

Sama ferli er í gangi í stofunni en svona er staðan í dag. Þetta gólf hefur verið stórmál og mjög seinlegt í vinnslu, en við verðum vonandi þeim mun ánægðari fyrir vikið. 

Þegar gólfið er komið förum við í eldhúsið, húsfreyjan bíður að minnsta kosti spennt eftir því.

Burðarbitar

Burðarbitar

Panel manía

Panel manía